Þjálfunarnámskeiðum lokið í Þýskalandi
Bílstjórar SBA-Norðurleiðar luku í upphafi desembermánaðar akstursöryggisnámskeiði í Þýskalandi á vegum Ökulands í samstarfi við Mercedes-Benz / Daimler Truck. Námskeiðið er nýtt sem hluti þeirrar endurmenntunnar sem atvinnubílstjórar þurfa að gangast undir á fimm ára fresti áður en ökuréttindi eru endurnýjuð.
Farið var með þrjá hópa í þriggja daga ferð til Þýskalands. Flogið var til Frankfurt og þaðan var keyrt til Heidelberg sem er fallegur bær í fjallalandslagi við bakka Neckar árinnar.
Þjálfunarnámskeiðið fór fram á gömlum herflugvelli í nágrenni Karlsruhe. Á námskeiðinu voru ökumenn þjálfaðir í ökuleikni, akstri við varhugaverðar aðstæður í snjó og hálku auk neyðarhemlunar framhjá hindrunum. Síðasti dagurinn var svo nýttur til að skoða tæknisafn þýska hersins í Koblenz og bíla- og tæknisafnið í Sinsheim.
Hér að neðan má sjá nokkrar myndir sem Guðni Sveinn Theodórsson ökukennari tók í ferðunum.